Akstursíþróttasamband Íslands AKÍS í samstarfi við Orku náttúrunnar ON heldur eina umferð í eRally FIA 23. og 24. ágúst 2019.
Keppt er á óbreyttum rafmagnsbílum með reglum sem notaðar eru í nákvæmnisakstri (e. regularity rally) þar sem ávallt er ekið innan löglegs hámarkshraða. Keppnin gengur út á að aka fyrirfram ákveðna leið samkvæmt leiðarbók og á hraða sem gefinn er upp í leiðarbókinni. Á nokkrum stöðum á leiðinni eru mælistaðir, þar sem bíllinn þarf að vera staddur á réttri sekúndu, að viðlagðri refsingu.
eRally Iceland
Keppnin er hefðbundin keppni í nákvæmnisakstri í tveimur hlutum með samtals sex leggjum á tveimur dögum. Daginn á undan fer fram skoðun keppnistækja.
Leyfileg keppnistæki
Leyfileg keppnistæki eru eins og þau eru skilgreind í reglum FIA Electric og New Energy Championship. Keppnin er eingöngu ætluð óbreyttum bílum þar sem drifrás er með rafmagni, bílum sem eru með gilda skráningu fyrir almenna notkun á vegum, án nokkurs konar breytinga á bílnum og gerir keppendum mögulegt að nota eigin bíla sem þeir nota daglega. Frumgerðir bíla eru einnig leyfðar ef þær eru með gilt akstursleyfi innan ESB.
Rafhleðsla
Rafhleðsla verður útveguð í samvinnu við ON sem eru helstu styrktaraðilar okkar. Kvöldið áður en keppnin hefst eru bílarnir staðsettir við höfuðstöðvar ON og verða fullhlaðnir og tilbúnir að morgni.
Hleðslustaðir fyrir ökutæki verða nánar skilgreindir í sérreglum keppninnar.
Fyrri daginn eru fjögur stig með samtals fimm klukkustundir til að hlaða á milli stiga.
Næturstæði með hleðslu er við höfuðstöðvar ON, þannig að bílarnir verði fullhlaðnir fyrir seinni daginn.
Seinni daginn eru tvö stig með tveggja klukkustunda hleðslu á milli.
Aðstæður
Keppnin verður keyrð á almennum opnum vegum í hefðbundinni umferð. Valdar eru fallegar leiðir í nágrenni Reykjavíkur, að mestu malbikaðar en einnig eru nokkrir malarvegir.
Keppnisgjald
Skráning er opin frá miðvikudeginum 10. júní 2019 @ 9:00 til mánudags 19. ágúst 2019 @ 23:59:
Einstaklingar greiða: 40.000.-
Lögaðilar / fyrirtæki: 55.000.-
Keppendur sem ekki samþykkja auglýsingar á ökutækjum sínum, greiða tvöfalt gjald.
Upplýsingar
Sjálfbærni og umhverfisvænn lífstíll er það sem koma skal. Alþjóðaaksturssambandið FIA hefur verið leiðandi í að kynna nýjar leiðir til að minnka mengun og losun koltvísýrings. Sem hluti af þessu átaki hleypti FIA árið 2017 af stokkunum mótaröð undir heitinu: FIA Electric and New Energy Championship til að legga aukna áherslu á mikilvægi þessa.
Markmið eRally er að kynna nýjustu tækni ökutækja sem ætlað er að spara orku sem gefa frá sér minnsta mögulega magn mengunar og koltvísýrings. Því er einnig ætlað að hvetja alla ökumenn til að breyta akstri með áherslu á umhverfisvernd og sjálfbærni bílaumferðar með því að nota rafmagn sem drifkraft ökutækja.